Innlent

Íslendingar greiða hugsanlega 150 milljarða vegna Icesave

Ætla má að islenskir skattgreiðendur muni þurfa að greiða 150 milljarða vegna skulda gamla Landsbanka í tengslum við Icesave-reikningana. Þetta kemur fram í nefndaráliti utanríkisnefndar vegna þingsályktunartillögu vegna málsins.

Í álitinu kemur fram að utanríkisnefnd hafi kynnt sér eigna- og skuldastöðu gamla Landsbanka Íslands, væntanlegar kröfur tryggingarsjóðsins á hann og hvað mætti gera ráð fyrir að fengist upp í þær kröfur við sölu á eignum bankans. Mikil óvissa sé enn um það virði sem fáist fyrir eignirnar en á grundvelli upplýsinga frá skilanefnd Landsbanka Íslands megi áætla að um 150 milljarðar króna geti staðið út af að því ferli loknu. Þessi niðurstaða sé þó háð mikilli óvissu. Sá möguleiki séfyrir hendi að eignir Landsbankans dugi fyrir forgangskröfum þannig að ekkert falli á ríkissjóð.

„Niðurstaða um þetta atriði ræðst fyrst og fremst af tvennu. Annars vegar af endanlegu virði eigna gamla Landsbankans, en talið er að hámarksverðmæti fáist fyrir þær með því að selja þær ekki að svo stöddu. Er gert ráð fyrir að eignirnar verði varðveittar í gamla Landsbankanum í u.þ.b. 3 ár. Hins vegar ræðst niðurstaðan af þeim samningum sem hér er leitað heimildar til að gera," segir í nefndaráliti utanríkisnefndar. Þá kemur fram í álitinu að afar ólíklegt sé að reyna muni á Tryggingarsjóð innstæðueigenda vegna Kaupþings og Glitnis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×