Enski boltinn

Newcastle á tilboði?

NordicPhotos/GettyImages

Breska sjónvarpið segist hafa heimildir fyrir því að Mike Ashley eigandi Newcastle hafi slegið verulega af upphaflegu kaupverði sem hann vildi fá fyrir félagið.

Ashley er upphaflega sagður hafa heimtað um 450 milljónir punda fyrir klúbbinn sem hann keypti fyrir réttu ári, en nú herma heimildir BBC að hann muni sætta sig við 280-300 milljónir punda.

Ashley keypti félagið fyrir 133 milljónir á sínum tíma en greiddi upp skuldir þess í leiðinni, svo talið er að hann kæmi út í um 50 milljónum punda í gróða ef hann fengi um 300 milljónir fyrir félagið.

Talið er að um fimm hópar fjárfesta séu að íhuga tilboð í Newcastle og er það talið nokkuð heillandi fjárfesting þrátt fyrir þá ólgu sem verið hefur í herbúðum liðsins síðustu mánuði.

Heimavöllurinn Saint Jame´s Park tekur um 52,000 manns í sæti og þar af eru um 35,000 ársmiðahafar hjá félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×