Innlent

Stúdentaráð fagnar skjótum viðbrögðum við vanda námsmanna

Stúdentaráð Háskóla Íslands fagnar því að ríkistjórn landsins skuli bregðast skjótt við þeim aðkallandi vanda sem íslenskir námsmenn etja við þessa dagana, sérstaklega þeir stúdentar sem stunda nám sitt erlendis.

Í tilkynningu um málið segir að stúdentaráð fagni því að menntamálaráðherra hlusti á kröfur stúdenta og taki mið af þeim tillögum sem stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna lagði til í formi neyðarúrbóta á þeim döpru aðstæðum sem skapast hafa í því fjármálakrísum sem gengið hafa yfir heimsbyggðina undanfarnar vikur.

Stúdentaráð fagnar því sérstaklega að íslenskir námsmenn erlendis eigi von á 23% hækkun framfærslulána sinna miðað við áður gerða samninga og því að tekjutenging þeirra sem sæki um námslán vorönn 2009 verði lækkuð um helming sem mun auðvelda einstaklingum af vinnumarkaði að hefja háskólanám.

Þó þessar umbætur séu tilteknar eru einnig gerðar frekari breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins sem koma stúdentum til góða nú þegar harðnað hefur á dalnum. Stúdentaráð gleðst yfir því að ríkisstjórn Íslands skuli standa vörð um Lánasjóðinn og veita stúdentum nauðsynlega aðstoð. Það veit á gott.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×