Enski boltinn

Þetta lið er ekki of gott til að falla

Woodgate segir Tottenham eiga skilið að vera á botninum
Woodgate segir Tottenham eiga skilið að vera á botninum NordicPhotos/GettyImages

Varnarmaðurinn Jonathan Woodgate hjá Tottenham segir að liðið sé ekki of gott til að falla úr ensku úrvalsdeildinni. Liðið tapaði enn einum leiknum í kvöld þegar það lá 2-0 fyrir ítalska liðinu Udinese í Evrópukeppni félagsliða.

"Fólk segir að þetta lið sé of gott til að falla en það er það ekki. Ég sá það gerast hjá Leeds og það var betra lið en við erum með hér. Við erum einfaldlega í bullandi fallbaráttu," sagði Woodgate, en gamla liðið hans Leeds féll úr úrvalsdeildinni árið 2004.

Hann sagðist ekki geta tekið neitt jákvætt út úr leiknum við Udinese í kvöld og kennir engum nema leikmönnum liðsins um stöðu mála í úrvalsdeildinni.

"Við eigum skilið að vera í neðsta sæti deildarinnar á miðað við hvernig við höfum spilað. Við verðum allir að bretta upp ermarnar og gera betur, því þetta verður mjög erfitt tímabil. Pressan eykst bara eftir því sem ófarirnar halda áfram," sagði varnarmaðurinn.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×