Innlent

Leitað að lausn á 900 milljarða kröfu Breta og Hollendinga

Til tíðinda gæti dregið í deilum íslenskra stjórnvalda við Breta og Hollendinga vegna Icesave-reikninganna í dag eða á morgun. Þetta herma heimildir Vísis.

Eins og kunnugt er eru deilurnar taldar koma í veg fyrir að Ísland fái lánafyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, sagði í sjónvarpsviðtali í Hollandi fyrr í vikunni að Hollendingar myndu standa í vegi fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn afgreiddi beiðni Íslands um aðstoð þar til deilan um Icesave yrði leyst.

Samkvæmt heimildum Vísis er nú unnið að samkomulagi við þjóðirnar en ekki hafa fengist upplýsingar um í hverju það myndi felast, hvort Íslendingar fallist á kröfur ríkjanna eða hvort málinu verði skotið til óháðra aðila. Kröfur ríkjanna nema 900 milljörðum króna samkvæmt upplýsingum Vísis.

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu eru stanslausar viðræður í gangi við að ná samningum í Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga. „Við getum sagt að það eru stanslausar viðræður á mörgum stöðum. Það eru haldnir fundir, menn hringja símtöl og senda tölvupósta. Allt sem hægt er að gera er gert. En þetta er ekkert einfalt mál," segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins. Kristján segir lítið annað hægt að segja um stöðu mála.

Það eru margir óvissuþættir í málinu sem meðal annars snúa að því hvort okkur verði lánað fyrir reikningunum, á hvaða kjörum það lán yrði og hvort það yrði til langs eða skamms tíma.

Meðal annars er verið að tala við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, en í frétt á forsíðu Morgunblaðsins í morgun segir að öll 27 aðildarríki ESB leggist gegn því að Íslandi fái aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nema fyrst verði samið um Icesave-skuldirnar.

Vísir hefur í allan morgun reynt að fá svör frá ráðamönnum þjóðarinnar. Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarkona utanríkisráðherra, hefur ekki svarað símanum. Það hefur Gréta Ingþórsdóttir, aðstoðarkona forsætisráðherra, heldur ekki gert, sem og Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra. Þorfinnur Ómarsson, upplýsingafulltrúi viðskiptaráðuneytisins, sagði þó í samtali við Vísi að málið væri ekki á forræði ráðuneytisins heldur forsætis- og utanríkisráðuneytisins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×