Innlent

Árni Matt: Fráleitt að samtalið við Darling hafi sett allt á hvolf

Árni Mathiesen
Árni Mathiesen

Árni Mathiesen, fjármálaráðherra telur af og frá að Alistair Darling fjármálaráðherra Breta hafi lagt þann skilning í samtal þeirra kollega á þriðjudaginn að Íslendingar myndu ekki bæta breskum sparifjáreigendum hjá Icesave tap sitt. Mbl.is segist hafa heimildir fyrir því innan úr fjármálaráðuneytinu breska að samtal ráðherranna hafi orðið til þess að allt fór á hvolf í Bretlandi í gær. Árni segist draga mjög í efa að samtalið hafi haft þessi áhrif.

„Mér finnst þessi frétt alveg fráleit," segur Árni í samtali við Vísi. „Ég sagði Darling í þessu símtali að við myndum standa við okkar skuldbindingar. Til viðbótar því myndu stjórnvöld sérstaklega styðja við sjóðinn en ég benti á að við hefðum verið að gera breytingar hér til þess að setja innistæðueigendur í forgang til þess að leysa úr þessu og koma í veg fyrir vandamál."'

Árni segist einnig hafa sagt Darling að „til þess að við gætum leyst úr svona máli þyrftum við fyrst að koma bankakerfinu í lag hjá okkur og þá gætum við tekist á við að leysa úr öðrum málum."

Hafi Darling dregið einhverjar meiri ályktanir af þessu samtali segir Árni að hann hafi þá verið að biðja um einhverjar yfirlýsingar sem ekki væru á forræði fjármálaráðherra að veita: „Hann hefur þá verið að ætlast til þess að ég segði einhverja aðra hluti og ég hef ekki heimild til þess að lýsa yfir einhverjum skuldbindingum sem við höfum ekki tekið á okkur," segir Árni og tekur fram að samtalið hafi verið „mjög kurteislegt og hófstillt."

„Ég dreg mjög í efa að þetta samtal hafi haft þessi áhrif, þetta var ekki þannig samtal."

Árni er á leið til Washington á ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. „Þar mun ég hitta bæði fulltrúa bandarískra og breskra stjórnvalda, sennilega Darling sjálfan, það er að minnsta kosti gert ráð fyrir því. Og yfirmenn í bankanum og gjaldeyrissjóðnum auk þess sem ég hitti fjölda fulltrúa viðskiptabanka sem við höfum átt viðskipti við."

Hann segir nauðsynlegt fyrir íslensk stjórnvöld að eiga í góðum samskiptum við alla aðila og útskýra stöðu landsins. „Það enginn vettvangur betur til þess fallinn en þessi. Ég myndi hvergi annars staðar ná að hitta jafn mikið af fólki úr þessum geira eins og þarna. Það er óþægilegt að fara af landi brott undir þessum kringumstæðum en það er nauðsynlegt að útskýra stöðu okkar og það sem við erum að glíma við."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×