Innlent

Segir málefnanlegar innistæður fyrir miklu fylgi Vg

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vg.
Steingrímur J. Sigfússon formaður Vg.

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs segir niðurstöður þjóðarpúls Gallups ekkert koma sér sérstaklega á óvart. Flokkur Steingríms mælist með mest fylgi allra flokka, á sama tíma og fylgi stjórnarflokkanna hrynur. Hann segir þann sem ekki sjái kröfu þjóðarinnar um breytingar bæði blindan og heyrnarlausan.

„Það er mikil gerjun í samfélaginu og óánægjan með stjórnarflokkana kemur því ekki á óvart. Ég held líka að okkar framganga og málflutningur hafi mælst mjög vel fyrir. Við höfum náð að halda haus og sýnt ábyrga afstöðu til mála," segir Steingrímur.

„Ég held líka að okkar gagnrýni á ríkjandi hugmyndafræði síðustu ára njóti sannmælis og fái stuðning núna. Það eru málefnanlegar innistæður fyrir því að við skorum hátt núna, með öllum þeim fyrirvörum sem maður setur við skoðanakannanir sérstaklega miðað við þær aðstæður sem eru uppi núna. Ég reyni því að halda ró minni á sama tíma og ég gleðst yfir þeim stuðningi sem við fáum."

Vinstri grænir mælast með 32% fylgi en stuðningur við ríkisstjórnina hrynur. „Það er auðvitað hin hliðin á þessum peningi. Stjórnin sem fyrirbæri er trausti rúin og sjálfstæðisflokkurinn ber auðvitað höfuðábyrgð á því ástandi sem nú er og fær því stærsta skellinn. Eigum við ekki að segja að það sé maklegt og sanngjarnt."

Steingrímur telur að það eigi að kjósa um leið og aðstæður séu réttar. „Menn verða að hlusta á þessi skilaboð og önnur sem berast úr þjóðfélaginu. Sá sem ekki gerir það er bæði blindur og heyrnarlaus, því þjóðin er að krefjast breytinga."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×