Innlent

Brottrekstur Bifrastardrengsins var ekki mistök

Breki Logason skrifar
Ágúst Einarsson rektor á Bifröst
Ágúst Einarsson rektor á Bifröst

Ágúst Einarsson rektor Háskólans á Bifröst segir það ekki hafa verið mistök að vísa nemendunum sem urðu uppvísir að fíkniefnamisferli frá skólanum, þrátt fyrir að komið hafi í ljós að einn þeirra væri ekki eigandi fíkniefnanna. Í síðustu viku felldi úrskurðarnefnd í kærumálum háskólanema ákvörðunina um brottrekstur eins þeirra úr gildi. Ágúst segir skólann vera að skoða það mál.

Í febrúar á þessu ári réðst lögreglan með hjálp sérsveitar ríkislögreglustjóra til atlögu í þremur íbúðum á Bifröst. Þrír nemendur voru handteknir grunaðir um að hafa fíkniefni undir höndum. Eftir mikla leit fundust 0,5 grömm af fíkniefnum. Daginn eftir voru nemendurnir, tveir piltar og ein stúlka, reknir úr skólanum.

Í íbúð annars piltanna fannst lítilræði af fíkniefnum sem hann kannaðist ekki við. Tæplega viku síðar kom samnemendi hans á lögreglustöðina í Borgarnesi, að eigin frumkvæði, og játaði að eiga fíkniefnin.

Þrátt fyrir þessar upplýsingar staðfesti háskólaráð ákvörðun rektors um að vísa piltinum frá skólanum. Í kjölfarið kærði hann úrskurðinn til úrskurðarnefndar kærumála háskólanema.

„Nei, nei, þessi ákvörðun var tekin með réttmætum hætti og ekkert athugavert við hana," segir Ágúst aðspurður um hvort það hafi verið mistök að reka piltinn úr skólanum.

Hann bendir á að tvö af þessum tilfellum hafi farið fyrir nefndina og í öðru þeirra hafi ákvörðun háskólaráðs verið staðfest.

„Í hinu tilfellinu var það ekki gert vegna formgalla við ákvörðun okkar. Við erum að skoða það mál," sagði Ágúst sem að öðru leyti vildi lítið tjá sig um málið.

Í grein sem Einar Hugi Bjarnason lögmaður piltsins skrifar í Fréttablaðið í dag fer hann yfir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.

„Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar er tekið fram að þegar ákvörðun háskólaráðs var tekin hafi rannsókn lögreglu vart verið hafin og ekki hafi verið tekin eiginleg lögregluskýrsla af kæranda. .........að mati nefndarinnar hefði þurft að rannsaka aðild kæranda að málinu betur áður en ákvörðun um brottvísun úr skóla var tekin og beita þá vægari úrræðum en því sem var mest íþyngjandi fyrir kæranda, hafi skólinn talið ástæðu til að grípa til viðurlaga gagnvart kæranda," skrifar Einar í greininni.

Einnig kemur fram í grein Einars að ákvörðunin sem nú hefur verið felld úr gildi hafi verið gríðarlega íþyngjandi fyrir piltinn og kippti fótunum undan ungum manni sem hafði miðað allar sínar framtíðaráætlanir við það að ljúka námi við Háskólann á Bifröst.

„Kærandi varð auk þess fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna brottvísunarinnar svo ekki sé minnst á þá andlegu erfiðleika sem hann og fjölskyldu hans hafa þurft að glíma við í kjölfarið."










Tengdar fréttir

„Ég líð ekkert svona á mínu svæði“

Þrír nemendur, tveir menn og ein kona, voru rekin úr Háskólanum á Bifröst í dag í kjölfar þess að fíkniefni fundust í íbúðum þeirra á háskólasvæðinu. Þetta staðfestir Ágúst Einarsson, rektor á Bifröst, í samtali við Vísi. „Ég líð ekkert svona á mínu svæði," segir Ágúst.

Tekið hart á fíkniefnamáli á Bifröst

„Það verður tekið hart á þessu máli því við líðum ekki þennan ófögnuð hérna," segir Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst um fíkniefnafund lögreglunnar í nemendaíbúðum við háskólann í gærkvöldi.

Fíkniefni fundust í nemendaíbúðum Háskólans á Bifröst

Fjölmennt lögreglulið úr Borgarfirði, Dölum, fíkniefnalögreglunni í Reykjavík og úr sérsveit ríkislögreglustjóra, ásamt tollgæslumönnum og þremur fíkniefnahundum, gerði húsleilt í þremur nemendaíbúðum við Háskólann á Bifröst í gærkvöldi.

Kæra rektor og háskólaráð

Tveir af þremur nemendum sem vikið var úr Háskólanum á Bifröst um mánaðarmótin eftir að vopnaðir lögreglumenn gerðu húsleit í íbúðum þeirra ætla að kæra Ágúst Einarsson rektor til siðanefndar háskólans. Þá ætla þeir líka að kæra staðfestingu háskólaráðs á brottvísun þeirra úr skólanum.

Fíkniefnamagnið var 0,5 grömm

Fíkniefnamagnið sem fannst á heimavist nemenda í Háskólanum á Bifröst nemur einungis 0,5 grömmum, samkvæmt heimildum Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×