Innlent

Tekið hart á fíkniefnamáli á Bifröst

„Það verður tekið hart á þessu máli því við líðum ekki þennan ófögnuð hérna," segir Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst um fíkniefnafund lögreglunnar í nemendaíbúðum við háskólann í gærkvöldi.

Fjölmennt lögreglulið úr Borgarfirði, Dölum, fíkniefnalögreglunni í Reykjavík og úr sérsveit ríkislögreglustjóra, ásamt tollgæslumönnum og þremur fíkniefnahundum, gerði húsleit á staðnum og fundust kannabisefni, amfetamín og kókaín neysluskömmtum í þremur íbúðum við háskólann. Leitin var gerð í samráði við skólayfirvöld og voru sérsveitarmenn vopnaðir, þar sem óttast var að vopn væru í einni íbúðinni en svo reyndist þó ekki.

„Við stöndum með löreglunni í því að gera þennan ófögnum útlægan í skólanum. Svona er samfélagið orðið og þetta er alls staðar í öllum skólum," segir Ágúst enn fremur um málið.

Aðspurður segir Ágúst málið snerta þrjá nemendur sem bjuggu í íbúðunum en engin ákvörðun hafi verið tekin um framtíð þeirra við skólann. Þá vildi hann ekkert segja til um hvort nemendurnir yrðu kallaðir fyrir í dag. „Þetta er mjög alvarlegt mál og sorglegt að það hafi komið upp," segir Ágúst.

Aðspurður vildi hann ekkert segja til um það hvort ábendingin um fíkniefnin hefði komið frá skólayfirvöldum eða hvernig lögregla hefði komist á snoðir um efnin og vísaði á lögregluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×