Innlent

„Ég líð ekkert svona á mínu svæði“

Ágúst Einarsson.
Ágúst Einarsson.

Þrír nemendur, tveir menn og ein kona, voru rekin úr Háskólanum á Bifröst í dag í kjölfar þess að fíkniefni fundust í íbúðum þeirra á háskólasvæðinu. Þetta staðfestir Ágúst Einarsson, rektor á Bifröst, í samtali við Vísi. „Ég líð ekkert svona á mínu svæði," segir Ágúst.

Fjölmennt lögreglulið, þar á meðal sérsveitarmenn, gerði húsleit í þremur nemendaíbúðum við Háskólann á Bifröst í gærkvöldi.

Leitin var gerð í samráði við skólayfirvöld og voru sérsveitarmennirnir vopnaðir þar sem óttast var að vopn væru í einni íbúðinni, en svo reyndist þó ekki. Kannabis, amfetamín og kókaín fundust í öllum íbúðunum, en aðeins í neysluskömmtum, og teljast málin upplýst.

„Ég er búinn að reka þessa þrjá nemendur sem áttu þarna hlut að máli." Ágúst segist líta málið mjög alvarlegum augum en að því sé nú lokið af hálfu skólans. Hann segir ekki sérstaka þörf á því að grípa til sérstakra aðgerða á háskólasvæðinu vegna málsins. „Þetta var afmarkað mál sem lögreglan var að rannsaka og við erum búin að gera þær ráðstafanir sem gera þarf hér hjá okkur. Við tókum á því með þessari festu og vísuðum þeim strax úr skólanum." Að sögn Ágústs höfðu nemendurnir ekki numið lengi við Bifröst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×