Lífið

Ráðhús baðað í bleiku

Frá fjáröflunarkvöldi í húsi Orkuveitu Reykjavíkur á vegum Krabbameinsfélagsins.
Frá fjáröflunarkvöldi í húsi Orkuveitu Reykjavíkur á vegum Krabbameinsfélagsins. MYND/Rafteikning.com

Í kvöld kl. 19:10 var Ráðhúsið í Reykjavík baðað bleikum ljósum sem leika munu um Ráðhúsið alla helgina. Það er Krabbameinsfélag Íslands sem stendur fyrir þessum atburði og vill með honum hvetja Íslendinga til að sýna samstöðu á þessum tímum þegar allir eiga erfitt og þakka fyrir sýndan stuðning í árveknisátaki um brjóstakrabbamein. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

„Við kveikjum þetta ljós í kvöld sem þakklætisvott og tákn um von. Þá hvetjum við fólk til að sýna ró og staðfestu á þessum erfiðu tímum," segir Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands. „Við viljum ennfremur þakka íslensku þjóðinni góðar viðtökur við bleiku slaufunni, það markmið var sett að selja 40.000 slaufur og því er næstum náð."

Lýsing Ráðhússins er í höndum nemenda í lýsingarhönnun við Tækniskólann. Guðjón L. Sigurðsson, lýsingarhönnuður hjá VST rafteikningu og kennari nemendanna segir lýsinguna kjörið tækifæri fyrir verðandi ljósahönnuði , enda er hún mjög metnaðarfull og mikið í hana lagt. „Unnið hefur verið að hönnun lýsingar og uppsetningu í fimm vikur. Þetta er allt unnið í sjálfboðavinnu og allur búnaður er fenginn að láni. Við lítum á þetta sem okkar framlag í baráttunni gegn brjóstakrabbameini og höfum hugsað okkur að gera þetta að árvissum atburði."

Fólki gefst tækifæri til að njóta lýsingarinnar yfir helgina.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.