Íslenski boltinn

Skoskt félag vill semja við Barry Smith

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Barry Smith í leik með Val gegn ÍA í sumar.
Barry Smith í leik með Val gegn ÍA í sumar. Nordic Photos / Getty Images

Skoska B-deildarliðið Greenock Morton vill semja við varnarmanninn Barry Smith og fá hann til að leika með liðinu út leiktíðina. Smith hefur leikið með Val undanfarin tvö ár.

Þetta kemur fram á heimasíðu Greenock Telegraph en í fréttinni segir að Smith sé samningsbundinn Val. Hið rétta er að samningur Smith við Val rann út í haust en Valsmenn vilja semja við Smith á nýjan leik.

Smith hefur hins vegar ekki gefið Valsmönnum svar en hann hefur að undanförnu æft með Morton til að halda sér í formi.

Knattspyrnustjóri liðsins, Jim McInally, vonast til að semja við Smith. „Mér líkar afar vel við Barry og tel að hann gæti gagnast liðinu vel. Ég hef spilað með Barry áður og alltaf fundist hann vanmetinn leikmaður."

„Hann hefur mikið fram að færa með sinni reynslu og leikgleði. Hann lék lengi í úrvalsdeildinni og við þurfum á manni með slíka reynslu að halda. Við þurfum að fá leikheimild fyrir hann frá íslenska knattspyrnusambandinu en vonandi verður hún komin fyrir helgina."

Smith hóf feril sinn hjá Celtic en lék í meira en áratug með Dundee áður en hann kom til Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×