Innlent

Vill skýr svör varðandi skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Guðjón Arnar Kristjánsson.
Guðjón Arnar Kristjánsson.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega fyrir skort á upplýsingum um ástand efnahagsmála á umræðum á Alþingi í dag.

Guðjón Arnar segist vilja að forsætisráðherra skýri fyrir þjóðinni með dæmum í hvað stefni. Þá vill hann að forsætisráðherra skýri frá því hvort að fréttir fjölmiðla í gær um að 5% vextir séu af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem þýði þá um 13 milljarða í vaxtagjöld á ári. Þá vill Guðjón jafnframt upplýsingar um kjör á lánum frá Norðurlandaþjóðunum og hvort að rétt sé að Rússar séu hættir við að lána Íslendingum.

Þá sagðist Guðjón Arnar vilja skýr svör varðandi skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hvort stjórnarliðar væru samstíga í hækkun vaxta því að hann skildi Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra eins og hún væri andvíg henni.

Guðjón Arnar sagði jafnframt að hann sæi fram á að reka þyrfti ríkissjóð með 100 milljarða halla á næsta ári til að afstýra miklu atvinnuleysi. Loks ítrekaði Guðjón þann vilja Frjálslynda flokksins að þorskaflaheimildir yrðu auknar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×