Innlent

Steingrímur segir stjórnvöld gefa misvísandi upplýsingar

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.
Undarlegur skortur á allri heilbrigðri sjálfsgagnrýni er skaðlegur Íslendingum í þeirri aðstæðum sem nú er uppi. Þetta kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar formanns Vinstri grænna á þingi í dag. Hann sagði að Íslendingar gætu ekki komist í gegnum ástandið ef einungis ytri aðstæðum væri kennt um. Það yrði að horfast í augu við þá staðreynd að ástandið hefði aldrei getað varað til lengdar, þ.e. að reka þjóð með viðvarandi viðskiptahalla og skuldasöfnun.

Þá gagnrýndi Steingrímur ríkisstjórnina fyrir að hafa staðið sig illa við miðlun upplýsinga. Það væri einfaldlega rangt sem hefði komið fram að Norðmenn hefðu sett það fram sem skilyrði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kæmi til aðstoðar. Það hefði komið fram í máli Jens Stoltenbergs, forsætisráðherra Noregs, að aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væri ekki skilyrði þó það gerði auðveldara fyrir Noreg að koma að máli. Þrjár útgáfur væru af frásögnum aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að stýrivaxtahækkun í 18%.

Annaðhvort skildu menn málin ekki eða þá að þeir væru vísvitandi að hagræða sannleikanum. Ráðherrar myndu ekki ná trúnaði almennings þegar þeir umgengust sannleikann með þessum hætti. Þá gagnrýndi Steingrímur það jafnfram að sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði gefið meiri upplýsingar um viðræður Íslendinga við sjóðinn en íslensk stjórnvöld hefðu gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×