Enski boltinn

Ben Foster er leikmaður 30. umferðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ben Foster stóð sig vel í marki United um helgina.
Ben Foster stóð sig vel í marki United um helgina. Nordic Photos / Getty Images

Ben Foster er leikmaður 30. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar en hann átti mjög góðan leik er Manchester United marði Derby, 1-0.

Smelltu hér til að sjá myndband af leikmanni 30. umferðar, markverðinum Ben Foster.

Þetta var reyndar fyrsti leikur Foster með United á tímabilinu en hann hefur verið lengi frá vegna meiðsla.

Foster fékk sinn atvinnumannasamning hjá Guðjóni Þórðarsyni sem þá var knattspyrnustjóri Stoke City. Þetta var árið 2001 en hann náði reyndar aldrei að spila deildarleik fyrir Stoke. Hann var hins vegar lánaður til fimm félaga á næstu fjórum árum.

Alex Ferguson, stjóri United, sá Foster spila í fyrsta skiptið er hann var í láni hjá Wrexham, fimmta og síðasta félaginu.

Ferguson var á bikarúrslitaleik neðrideildarfélaga vorið 2005 en þar stóð Foster í marki Wrexham sem vann bikarinn það árið. Ferguson var reyndar á leiknum þar sem sonur hans, Darren, var að spila.

En Ferguson ákvað nokkru síðar að fá Foster til félagsins enda hafði leitin af arftaka Peter Schmeichel gengið fremur illa. Enn þann daginn í dag eru flestir á því að Foster sé verðugur arftaki Schmeichel en sem fyrr segir hafa meiðsli plagað hann á þessu tímabili.

Foster var lánaður til Watford fyrstu tvö tímabilin sín hjá United þar sem hann lék 73 leiki og fór oft á kostum. Aidy Boothroyd, stjóri Watford, sagði að Foster væri ótrúlegur hæfileikamaður, væri jafnvel betri en Edwin van der Sar (aðalmarkvörður United) og myndi verða besti markvörður heims.

Hann fór í aðgerð vegna krossbandaslita í sumar en hefur undanfarnar vikur verið að ná sér aftur á strik. Frammistaða hans gegn Derby um helgina er því afar eftirektarverð því þetta var jú fyrsti leikur hans fyrir Manchester United.

United vann leikinn, 1-0, og Foster varði afar vel tvívegis í leiknum og hélt þar með hreinu. Þökk sé sigrinum komst United á topp ensku úrvalsdeildarinnar á nýjan leik.

Lið vikunnar:

Markvörður: Ben Foster, Manchester United

Vörn:

Nedum Onuoha, Manchester City

Kolo Toure, Arsenal

John Terry, Chelsea

Miðja:

Javier Mascherano, Liverpool

Marek Matejovsky, Reading

Wilson Palacios, Wigan

Cristiano Ronaldo, Manchester United

Sókn:

Jeremie Aliadiere, Middlesbrough

Emile Heskey, Wigan

Brian McBride, Fulham




Fleiri fréttir

Sjá meira


×