Enski boltinn

Tíu ára áætlun Manchester City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Thaksin Shinawatra og Khaldoon Al Mubarak, fráfarandi og verðandi stjórnarmaður City.
Thaksin Shinawatra og Khaldoon Al Mubarak, fráfarandi og verðandi stjórnarmaður City. Nordic Photos / Getty Images

Nýir eigendur Manchester City hafa gefið út tíu ára áætlun á félagið en á þeim tíma ætla þeir að byggja upp stórveldi í heimsknattspyrnunni.

Khaldoon Al Mubarak, verðandi stjórnarformaður City, sagði að félagið ætlaði sér ekki að grípa til óvenjulegra aðgerðra en að það væri eðlilegt að það ætlaði sér að verða stórveldi í framtíðinni.

„Garry Cook stjórnarformaður og Mark Hughes knattspyrnustjóri ráða ferðinni en við erum hér til að hjálpa til við að byggja upp sjálfbært félag. Ég held að við munum í leiðinni njóta þess til hins ítrasta," sagði Al Mukarak en félag hans, Abu Dhabi United Group, mun í dag formlega ganga frá kaupum sínum á félaginu.

Hann lofaði því einnig að Mark Hughes yrði áfram við stjórnvölinn hjá félaginu.

„Það er varla hægt að fá betri mann í starfið en Mark og við stöndum heils hugar við bak hans. Hann er heiðarlegur maður og sannur leiðtogi. Við treystum honum."

Al Mubarak lagði einnig áherslu á að nýir eigendur félagsins myndu ekki skipta sér af málefnum liðsins. „Mark sér um ákvarðanir á þeim vettvangi en við erum hér til að læra af honum."

„Það er Mark sem ræður og hann mun setja saman áætlun um að vinna titla. En við þurfum að sýna þolinmæði."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×