Vísir hefur flutt reglulegar fréttir af veru stórleikarans Mel Gibson hér á landi. Samkvæmt heimildum Vísis hefur leikarinn eytt deginum í veiði með mönnum úr Landsbankanum. Heimildir Vísis herma að það hafi verið Selá í Vopnafirði sem hafi orðið fyrir valinu og þykir það ein flottasta veiðiá landsins. Mun Gibson vera nokkuð áhugasamur um laxveiði og gat því ekki sleppt tækifærinu meðan hann dvaldi hér á landi.
Vísir sagði frá því í gær að hann hefði verið að spóka sig í Reykjavík. Meðal annars kíkti hann Hallgrímskirkju og fékk sér þrefaldan kaffi Latté á Te & Kaffi. Gærkvöldinu eyddi hann á veitingastaðnum Við Tjörnina.