Innlent

Námið reyndist ekki eins gott og sagt var

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt konu til að greiða 19 öðrum konum samtals nærri sjö milljónir króna í skaðabætur vegna náms í innanhússtillistun sem ekki reyndist vera eins gott og það var auglýst.

Námið var auglýst í blöðum sem alþjóðlegur skóli, The Academy of Colour and Style, sem kenndi útlitsráðgjöf og kostaði námið 560 þúsund krónur. Alls skráðu 33 nemendur sig í námið sem var í umsjón hinnar stefndu. Konurnar 19 sem stefndu henni sögðu fyrir dómi að námið hefði ekki verið eins og það hefði verið auglýst, til að mynda að ekki hefði verið um erlendan aðila að ræða.

Dómurinn tók undir með stefnendum og sagði auglýsinguna villandi og þá sagði hann að ekkert styddi fullyrðingu hinnar stefndu um að diplóma, sem átti fást að loknu námi, væri einhvers virði í framtíðinni. Kom enn fremur í ljós að konan var með minna nám á bak við sig en hún bauð nemendum sínum upp á.

Þá kom í ljós að helmingur gestafyrirlesara í náminu hafði verið frá verslunum sem voru að kynna vörur sínar. „Að mati dómsins er villandi í auglýsingunni að tala um aðila, sem eru að selja ákveðna þjónustu/vöru, sem gestafyrirlesara, án þess að gera frekari grein fyrir þeim. Ljóst er að mati dómsins, að hver og einn á að geta fengið upplýsingar um vöru og þjónustu með því að fara í fyrirtæki þessara gestafyrirlesara," segir í dómnum.

Taldi dómurinn því 560 þúsund krónur ekki sanngjarnt endurgjald fyrir námið heldur einungis 132 þúsund krónur og dæmdi konunum mismunandi háar bætur, allt frá um 120 þúsund krónum til 428 þúsund króna, allt eftir kröfum þeirra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×