Íslenski boltinn

Ásmundur stoltur af sínum mönnum

Ómar Þorgeirsson skrifar
Ásmundur Arnarsson.
Ásmundur Arnarsson. Mynd/E. Stefán

Ásmundur Arnarsson, þjálfari nýliða Fjölnis, var að vonum ánægður með sína menn eftir 3-0 útisigur á Þrótti í 1. umferð Landsbankadeildarinnar í dag. Glæsileg úrslit í fyrsta leik liðsins í efstu deild.

„Ég er mjög stoltur af mínum mönnum og mér fannst við vera að skapa okkur mikið af færum og vorum ennfremur að spila öflugan varnarleik. Við fengum náttúrulega tvo öfluga varnarmenn til þess að þétta okkur og þeir áttu báðir góðan leik í dag og ég vonast til þess að það haldi áfram," sagði Ásmundur sem hlakkar mjög til næsta leiks gegn KR.

„Við þurfum að koma okkur hratt og örugglega niður á jörðina fyrir leikinn gegn KR. Það er náttúrulega draumur að fá stórlið eins og KR í fyrsta heimaleik í efstu deild og það verður gaman fyrir okkur að takast á við það verkefni," sagði Ásmundur ánægður.

Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar, segir að það hafi verið hrollur sínum mönnum. „Annað eins hefur nú gerst hjá góðum liðum að menn ná ekki hrollinum úr sér fyrir fyrsta leik. Fyrri hálfleikurinn var kannski skítsæmilegur af okkar hálfu en mér fannst við samt taugaveiklaðir og hægir. Í seinni hálfleik þegar við fórum að að færa okkur framar á völlinn og sækja þá eru þeir mjög hættulegir í skyndisóknunum og við réðum hreinlega ekkert við þá," sagði Gunnar sem vonast eftir því að hans menn girði sig í brók fyrir næsta leik.

„Við vitum að við þurfum að bæta okkar leik til muna ef við ætlum að fara að safna stigum og það er náttúrulega markmiðið, að koma mönnum í gírin og byrja að safna stigum á stigatöfluna," sagði Gunnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×