Innlent

Myglisveppir angra fjögurra manna fjölskyldu

Fjögurra manna fjölskylda í Reykjavík hefur ítrekað lent á hrakhólum eftir myglusveppir fundust á heimili þeirra. Veikindi hafa hrjáð báða foreldra og tvær ungar dætur þeirra - sem talin eru að rekja megi til sveppanna.

Á einu ári hefur fyrirtæki í Mosfellsbæ skoðað og fundið myglusveppi á um 350 heimilum og vinnustöðum á Íslandi. Um tvö hundruð þeirra voru staðfest með sýnatöku.

Þeirra á meðal er heimili Helgu Dísar og fjölskyldu hennar. Þau hafa þrisvar búið í húsnæði þar sem myglusveppir hafa fundist - fyrst þegar þau voru í námi í Portúgal og leigðu þar fína íbúð - en með myglusveppum inn á baði.

Veikindin tóku sig upp þegar þau fluttu til Íslands og Helga gekk árangurslaust á milli lækna til að leita skýringa. Þurr hósti, flensur, magakveisur, útbrot og blæðandi slímhúð í nefi hrjáði þau óeðlilega oft.

Á leið í enn eina blóðprufuna á læknabiðstofu rakst hún svo á grein í tímariti um myglusveppi og áhrif þeirra á heilsu fólks - og furðaði sig á hve lýsingarnar áttu vel við veikindi fjölskyldunnar. Í kjölfarið var tekið sýni af lítilli svartri rönd á vegg í íbúðinni.

Þau fluttu út yfir helgi - og einkennin hurfu. Helga segir lækna hafa staðfest að veikindin megi rekja til sveppanna. Hún tekur fram að myglan angri þó ekki alla, fólk sé misnæmt, en þau geti ekki heimsótt hvern sem er í hópi vina og ættingja.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×