Innlent

Rektor Hí ræðir við kínversk skólayfirvöld

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, hefur þegið boð kínverskra stjórnvalda sem fara með málefni Konfúsíusarstofnana víða um heim, um að sækja alþjóðlega ráðstefnu Konfúsíusarstofnana í Beijing í vikunni. Kristín, sem hélt utan nú um helgina, mun einnig ræða víðtækt samstarf við fulltrúa kínverskra háskóla í ferð sinni. Samvinna Háskóla Íslands við kínverskar menntastofnanir hefur aukist stórlega á síðustu mánuðum, eftit því sem segir í fréttatilkynningu frá HÍ.

Þar segir að Konfúsíusarstofnanir séu menntastofnanir sem stuðli að fræðslu um kínverska tungu og menningu. Fyrr á þessu ári hafi Konfúsíusarstofnunin Norðurljós verið stofnuð við Háskóla Íslands en með því hafi verið greitt fyrir rannsóknasamstarfi og nemendaskiptum milli Íslands og Kína. Nú séu átta stúdentar frá Háskóla Íslands í skiptinámi í Kína, allir í Ningbo-háskóla, en þeir muni innan skamms nema við fleiri samstarfsskóla Háskóla Íslands í Kína.

„Samstarfsskólar Háskóla Íslands í Kína eru nú 5 talsins og fer þeim ört fjölgandi. Auk Ningbo-háskóla eru það Fudan University í Shanghai, Beijing Normal University, Jilin University í Changchun og Beijing Foreign Studies University. Í ferðinni til Kína mun Kristín Ingólfsdóttir heimsækja síðasttalda háskólann, þar sem hún mun hitta kínverska nemendur sem leggja stund á nám í íslensku en kennsla íslenskum fræðum hófst við Beijing Foreign Studies University í haust. Þá sækir Kristín einnig heim Beijing University, sem er einn virtasti háskóli í Asíu, og Renmin University of China," segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×