Enski boltinn

Eduardo: Taylor heimsótti mig ekki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eduardo er hér borinn af velli eftir tæklinguna ljótu.
Eduardo er hér borinn af velli eftir tæklinguna ljótu. Nordic Photos / Getty Images

Eduardo segir að það sé rangt sem komið hafi fram í enskum fjölmiðlum að Martin Taylor hafi heimsótt sig á sjúkrahúsið eftir að hann fótbrotnaði illa.

Taylor, leikmaður Birmingham, braut á Eduardo þannig að ökkli hans afmyndaðist afar illa í leik liðsins gegn Arsenal fyrir tæpum tveimur vikum.

Taylor var sagður niðurbrotinn maður eftir atvikið og að hann hefði heimsótt Eduardo næsta dag á sjúkrahúsið þar sem hann dvaldi.

„Það kom fram í öllum blöðum að Taylor hefði heimsótt mig og beðið afsökunar. Ég verð að leggja áherslu á að það gerðist aldrei. Það er skáldskapur."

„Viðtalið sem birtist við mig er líka skáldað upp. Það átti sér ekki heldur stað," sagði Eduardo í samtali við króatíska sjónvarpsstöð í gær.

„Ágangur fjölmiðla var of mikill. Ég þurfti nauðsynlega að fá frið til að jafna mig."

Eduardo lýsti augnablikunum eftir að tæklingin átti sér stað í viðtalinu í gær.

„Ég fótbrotnaði vegna þess að einmitt þá var ég með allan minn þunga á þeim fæti. Ef fóturinn hefði verið í lausu lofti hefði þetta bara verið aukaspyrna."

„Fyrst fann ég ekki fyrir neinum sársauka. En þegar ég sá hvernig fóturinn var fékk ég áfall. Gilberto kom til mín og útskýrði fyrir mér á portúgölsku hvað sjúkraþjálfararnir væru að gera. En ég var í svo miklu áfalli að ég skildi ekkert hvað hann var að segja."

Það skal tekið fram að Eduardo fæddist í Brasilíu en er króatískur ríkisborgari og landsliðsmaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×