Innlent

Ein tollgæsla - eitt tollumdæmi ályktar TFÍ

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Guðbjörn Guðbjörnsson.
Guðbjörn Guðbjörnsson.

Einhugur er um það innan Tollvarðafélags Íslands að tollgæslan í landinu verði sameinuð undir eina stjórn og landið allt gert að einu tollumdæmi. Fjölmennur félagsfundur samþykkti ályktun þar að lútandi einróma í síðustu viku.

„Tollverðir vilja m.a. rannsaka öll tollalagabrot sjálfir líkt og gerist hjá tollstjóranum í Reykjavík og heimild er fyrir í tollalögum og að færanlegt aðgerðateymi tollstjóra vinni á landsvísu og verði eflt til muna," sagði Guðbjörn Guðbjörnsson formaður í samtali við Vísi. Hann segist vilja endurvekja embætti ríkistollstjóra og telur það hafa háð vexti og viðgangi tollsins mjög að slíkt embætti sé ekki til staðar [ríkistollstjóraembættið var aflagt í ársbyrjun 2001 og tók tollstjórinn í Reykjavík við flestum verkefnum ríkistollstjóra].

Vill tryggja góða samvinnu við lögreglu

Guðbjörn segir yfirmenn tollgæslu á landinu öllu sammála um þessar breytingar en sjálfur stýrir hann tollmiðstöð tollstjórans á Suðurnesjum. Hann segir Tollvarðafélagið þó mjög áfram um að góð samvinna við lögregluna verði tryggð, m.a. með gerð samstarfssamninga við lögregluyfirvöld á hverjum stað, verði af sameiningu tollgæslunnar, en lögregla aðstoði oft við tollafgreiðslu úti á landi í skjóli sérstakrar heimildar í tollalögum.

Guðbjörn segir það mikilvægt að landa svo stóru máli með fullri sátt allra hlutaðeigandi aðila og persónulega þætti honum það mikið ánægjuefni kæmust tollgæsla og tollstjórn loks óskipt undir fjármálaráðuneytið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×