Erlent

Mugabe sakar Botswana um að brugga sér launráð

Robert Mugabe.
Robert Mugabe.

Ráðamenn í Simbabve segja yfirvöld í nágrannaríkinu Botsvana leggja á ráðin um að steypa Robert Mugabe forseta landsins og þjálfi til þess herskáa stjórnarandstæðinga. Mugabe á undir högg að sækja vegna mannskæðs kólerufaraldurs í Simbabve sem nágrannar óttast að breiðist út.

Um átta hundruð hafa látist af völdum kólerufaraldursins og mörg hundruð Simbabvebúar eru sýktir. Mugabe sagði fyrir helgi að búið væri að hefta útbreiðslu sjúkdómsins en leiðtogar nágrannaríkja og fulltrúar alþjóðlegra hjálparsamtaka efast um það. Talsmaður í ríkisstjórn Mugabe hefur sagt að Bretar og Bandaríkjamenn hafi beitt efnavopnum til að kalla fram kóleru. Þannig hefður þeir ástæðu til að grípa til vopna gegn ráðamönnum í Simbabve.

Patrick Chinamasa, dómsmálaráðherra Simbabve, sagði síðan í viðtali við ríkisdagblað Herald í morgun að ríkisstjórnin hefði undir höndum gögn sem sönnuðu að Ian Khama, forseti Botsvana, hefði útvegað herskáum stjórnarandstæðingum í Simbabve herþjálfun. Khama ætlaði þannig að tryggja að Mugabe yrði steypt af stóli. Chinamasa sagði málið nú í rannsókn hjá Þróunarsamtökum ríkja í suðurhluta Afríku.

Fulltrúar MDC, stærsta stjórnarandstöðuflokksins í Simbabve, hafa vísað þessu fullyrðingum á bug. Ráðamenn í Botsvana hafa enn ekki tjáð sig um málið.

Mugabe og Morgan Tsvangirai, leiðtogi MDC, hafa síðan í haust reynt að mynda þjóðstjórn. Það hefur ekki tekist og málið í hnút. Samkvæmt samkomulagi frá í september átti Mugabe áfram að vera forseti og Tsvangirai að taka við sem forsætisráðherra en fyrst þurfti að skipa ráðherra í önnur embætti sem hefur gengið treglega.

Talsmaður MDC segir nýjasta útspil liðsmanna í Zanu PF flokki Mugabes vera til að draga athyglina frá þrýstingi alþjóðasamfélagsins um að Mugabe segi af sér og um leið ætlað að gefa Mugabe ástæðu til að berja aftur á stjórnarandstæðingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×