Enski boltinn

Windass: Hull getur náð Evrópusæti

NordicPhotos/GettyImages

Gamla brýnið Dean Windass hjá Hull City segir ekkert því til fyrirstöðu að liðið nái Evrópusæti í úrvalsdeildinni í vetur. Hull hefur komið gríðarlega á óvart og situr í þriðja sæti deildarinnar.

"Strákarnir voru frábærir í sigrinum á West Ham um helgina og við höldum áfram að ná góðum úrslitum. Það góða við leiktíðina til þessa er, að fyrir utan einn slæman leik (0-5 tap heima gegn Wigan), hefur ekkert lið valdið okkur sérstökum vandræðum," sagði hinn 39 ára gamli framherji sem tryggði Hull sæti í úrvalsdeildinni í vor.

"Við trúum því að við getum barist um sæti í Evrópukeppninni í lok leiktíðar og ef við höldum áfram svona, gætum við komið stóru liðunum á óvart. Við eigum fyrir höndum stóra leiki gegn Manchester United og Chelsea, en það verður engin pressa á okkur í þessum leikjum. Allir gera ráð fyrir að við munum tapa, en kannski tekst okkur að koma fólki á óvart áfram," sagði Windass.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×