Innlent

Obama byrjaður að velja í stjórn

MYND/AP

Barack Obama, verðandi Bandaríkjaforseti, er þegar byrjaður að velja í stjórn og starfslið sitt. Hann hefur boðið Rahm Emanuel, fulltrúadeildarþingmanni og fyrrverandi ráðgjafa Bills Clintons, að verða starfsmannastjóri sinn. Búist er við að Obama vilji skipa nýjan fjármálaráðherra hið fyrsta en að hann biðji Robert Gates að gegna áfram embætti varnarmálaráðherra.

Emanuel, sem er fjörutíu og átta ára, er þungavigtarmaður í Demókrataflokknum þótt hann hafi aðeins setið í fulltrúadeildinni fyrir Illinois-ríki síðan 2002. Hann hélt um fjáröflun fyrir forsetaframboð Clintons 1992 og varð síðan einn helsti ráðgjafi hans í efnahagsmálum á árunum 1993 til 1998. Emanuel átti stóran þátt í afla nægilegs stuðnings úr röðum demókrata við sjö hundruð milljarða dala bankabjörguninni fyrir skömmu.

Obama hefur nú boðið Emanuel að taka að sér stöðu starfsmannastjóra í Hvíta húsinu sem er ein valdamesta staða í bandarískum stjórnmálum.

Obama er einnig farinn að huga að ráðherravali í ríkisstjórn sína. Talið er nær víst að hann vildi Hank Paulson, fjármálaráðherra út og þegar skipa nýjan. Þar koma til greina þeir Larry Summers, fyrrverandi fjármálaráðherra í ríkisstjórn Clintons, og Timothy Geithner, bankastjóri seðlabanka New York.

Talið er líklegt að Obama biðji Robert Gates að vera áfram varnarmálaráðherra en George Bush, fráfarandi Bandaríkjaforseti skipaði hann í embættið í desember 2006 þegar Donald Rumsfeld hrökklaðist úr því. Gates nýtur virðingar hjá bæði repúblíkönum og demókrötum og hefur Obama sagt að hann sjái ekkert því til fyrirstöðu að hæfir repúblíkanar taki sæti í ríkisstjórn hans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×