Erlent

Vara við könnunum sem sýna Obama með forskot

Óli Tynes skrifar

Sérfræðingar í Bandaríkjunum vara við því að of mikið mark sé tekið á tölum um það forskot sem Barack Obama hefur á John McCain í forsetakosningunum.

Samkvæmt skoðanakönnunum er Barack Obama með tíu og jafnvel tólf prósenta forskot á John McCain. Ýmsir sérfræðingar vilja þó taka þeim tölum með fyrirvara.

Reuters fréttastofan fékk Zogby rannsóknarstofnunina til þess að gera fyrir sig sérskrifaða könnun. Samkvæmt henni var forskot Obamas fimm prósent eða minna.

Það sem menn líta ekki síst til eru Bradley-áhrifin svokölluðu. Þar er vísað til Toms Bradley borgarstjóra í Los Angeles. Árið 1985 bauð hann sig fram í embætti ríkisstjóra í Kaliforníu.

Í skoðanakönnunum var honum spáð hreinum sigri, en niðurstaðan varð sú að hann tapaði.

Menn velta því nú fyrir sér hvort Obama hljóti sömu örlög. Að í skoðanakönnunum segist menn styðja svarta frambjóðandann af því að þeir vilji ekki láta líta á sig sem kynþáttahatara.

Í kjörklefanum eru þeir hinsvegar einir með sínar skoðanir og þá kjósi þeir hvíta manninn.

Mikið er deilt um hvort þetta sé alvarlegur möguleiki. Bæði Obama og McCain hafa lagt áherslu á að kosningarnar snúist ekki um kynþætti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×