Erlent

Danir bjóða fátækum Íslendingum frítt á íshokkí

Frændur okkar Danir vorkenna Íslendingum verulega í fjárhagskrísunni sem nú gengur yfir. Og það þótt íslenskir útrásarvíkingar hafi undanfarin ár dundað sér við að kaupa upp mörg sögufrægustu fyrirtæki landsins.

Íslendingar í Danmörku hafa orðið illa úti við hrun bankanna, og eiga flestir þeirra í stökustu vandræðum með að nálgast fé sem þeir eiga hér heima. Íshokkíklúbbur Óðinsvéa hefur ákveðið að sjá aumur á landsmönnum og bjóða öllum íslendingum frítt inn á leik klúbbsins og Totempo HVIK næstkomandi fimmtudag.

Framkvæmdastjóri klúbbsins, Jørgen Bay-Kastrup, segir í samtali við Extrablaðið að hann hafi heyrt af vandræðum íslendinganna og því ákveðið að bjóða þeim frítt á leikinni. Það sé einnig tilvalin leið til að markaðssetja íþróttagreinina.

Um 8200 íslendingar búa í Danmörku, og um fimm hundruð þeirra í Óðinsvéum. Blaðið hefur það eftir Þórhönnu Sveinsdóttur, frá Íslendingafélaginu á Fjóni, að hún sé hrærð yfir umhyggju íshokkíklúbbsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×