Erlent

Slapp úr fangabúðum FARC eftir átta ár

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Oscar Tulio Lizcano eftir átta ára fangavist í frumskóginum.
Oscar Tulio Lizcano eftir átta ára fangavist í frumskóginum. MYND/AP

Fyrrverandi kólumbískum þingmanni, Oscar Tulio Lizcano, tókst að flýja úr fangabúðum kólumbísku skæruliðasamtakanna FARC um helgina eftir að hafa verið haldið föngnum í átta ár djúpt í frumskógum Kólumbíu.

Mjög var dregið af Lizcano þegar hann ræddi við fréttamenn í gær og höfðu langvarandi vannæring og kröpp kjör í fangabúðunum augljóslega sett mark sitt á hann. Það var fyrrverandi FARC-liði sem hjálpaði Lizcano að flýja búðirnar. Sá gengur undir nafninu Isaza og hét Alvaro Uribe, forseti Kólumbíu, því í sjónvarpsviðtali í gær að bjargvættinum yrði launað ríkulega og gefið færi á að setjast að í Frakklandi ásamt fjölskyldu sinni. Slíkt væri í samræmi við þá stefnu kólumbískra stjórnvalda að umbuna uppreisnarmönnum sem hlaupast undan merkjum sínum hjá FARC og hjálpa til við að veita föngum samtakanna frelsi á ný.

Talið er að FARC-samtökin haldi um 750 manns föngnum í felubúðum víðs vegar um Kólumbíu en taka fanga er hluti af baráttu samtakanna við kólumbísk stjórnvöld sem staðið hefur í rúm 40 ár. Fjölskylda Lizcano fagnar frelsi hans ákaflega og segist lengi hafa beðið þess að heimta ástvin sinn til baka úr klóm FARC.

Sjálfur segist Lizcano varla hafa mælt orð af vörum síðan hann var tekinn höndum í ágúst árið 2000 en verðir fangabúðanna yrtu aldrei á hann. Eina lesefnið sem honum stóð til boða var Ódysseifskviða eftir gríska skáldjöfurinn Hómer hinn blinda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×