Lífið

Söfnun fyrir gróðurhúsi á Litla-Hraun rýkur í gang

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Vistmenn Litla-Hrauns stumra yfir jurtum sínum með vaxandi þrá.
Vistmenn Litla-Hrauns stumra yfir jurtum sínum með vaxandi þrá. MYND/Páll Jökull

„Ég er komin með tíu prósent af upphæðinni," segir Auður I. Ottesen, ritstjóri Sumarhússins og garðsins, en eins og Vísir greindi frá í fyrradag gengst hún fyrir fjársöfnun til kaupa á gróðurhúsi handa föngum á Litla-Hrauni. „Hálftíma eftir að þetta kom á Vísi komu tvær færslur inn á reikninginn, önnur frá lögfræðingi og hin frá ungri stúlku," segir Auður glaðbeitt.

„Húsið sjálft kostar 500.000 krónur en ég stefni á 750.000 til að geta keypt alla fylgihluti. Ég er eingöngu búin að kynna þetta í okkar blaði og öðrum fjölmiðlum og svo er ég að fara af stað í að senda út póst og hringja í fólk," segir hún enn fremur og kveðst engan veginn bangin um að verkefnið heppnist ekki.

„Okkur eru til dæmis að berast gjafir. Innigarðar voru að gefa græjur til að rækta tómata og þeir hjá Jötni Vélum hf. á Selfossi ætla að skaffa sérhæfðan mann í það og svo eru þetta náttúrulega kraftakögglar þarna fyrir austan," segir Auður og áætlar að uppsetning hússins taki um tvo daga.

Allir þeir sem vilja leggja málefninu lið geta haft samband Auði I. Ottesen í síma 578-4800 eða á netfangið audur@rit.is eða lagt inn á reikning 101-26-171717, kt. 481203-3330.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.