Enski boltinn

Pavlyuchenko finnst æfingarnar erfiðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roman Pavlyuchenko í leik með Tottenham.
Roman Pavlyuchenko í leik með Tottenham. Nordic Photos / Getty Images

Roman Pavlyuchenko segist aldrei hafa búast við jafn erfiðum æfingum og hann hefur mátt þola hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Tottenham.

Pavlyuchenko kom til Tottenham frá Spartak Moskvu á lokadegi félagaskiptagluggans um síðustu mánaðamót. Þá var hálft ár liðið frá því að tímabilið í Rússlandi hófst auk þess sem hann spilaði með rússneska landsliðinu á EM í sumar.

Hann hefur nú spilað í tveimur leikjum með Tottenham og var tekinn af velli í hálfleik gegn Wigan um helgina.

Pavlyuchenko segir að það sem hafi komið sér mest á óvart við dvölina hjá Tottenham eru stífar og strangar æfingar hjá félaginu.

„Þegar það er vika á milli leikja eru æfingarnar virkilega erfiðar. Ég rétt komst í gegnum þær fyrst þegar ég kom."

„Ég leit eitt sinn á klukkuna og sá að æfingin hafði staðið yfir í tvo klukkutíma. Svo tók við hálftími í tækjasalnum! Tveir og hálfur tími! Geturðu ímyndað þér?"

„Ég hef aldrei lent í öðru eins á mínum ferli. Lóðin fóru að verða of þung og ég varð að stoppa og segja þjálfaranum að ég gæti ekki meira. Ég varð fyrir miklu áfalli. Ég hélt að þetta yrði miklu auðveldara."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×