Erlent

Bretar hvattir til minni garðyrkjustarfa til að bjarga þröstum

Þröstum hefur fækkað um sjötíu prósent í borgum og bæjum í Bretlandi á síðustu þrjátíu árum. Bretar eru hvattir til þess að vera latir í garðinum til að bjarga þessu við.

Ástæðan fyrir fækkun þrastanna er fyrst og fremst rakin til þess að eftir því sem velmegun hefur aukist í Bretlandi hefur fólk farið að dunda meira í görðum sínum.

Það hefur lagt hellur og stéttar skipt út breskum gróðri fyrir framandi og gert sér stórar verandir. Það hefur svo leitt til mikillar fækkunar skordýra.

Það er búið að helluleggja og palla svo mikið að skordýr þrífast ekki lengur í görðunum. Þarmeð hefur matarkista þrastanna tæmst.

Fuglafræðingur segir að til þess að viðhalda stofninum þurfi hvert þrastapar að koma á legg fimm ungum. Ástandið nú sé þannig að stór hluti unganna drepist á fjórum dögum eftir að þeim sé ungað út.

Fuglafræðingurinn segir að eina vonin til þess að fjölga þröstunum sé sú að Bretar gerist latir í görðum sínum. Leyfi þeim að vaxa í órækt. Þá snúi skordýrin aftur og þarmeð þrestirnir.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×