Íslenski boltinn

Þurfum nauðsynlega á þremur stigum að halda

Ólafur Jóhannesson
Ólafur Jóhannesson Mynd/E. Stefán

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari segir lið sitt verða sókndjarfara gegn Makedóníu annað kvöld en verið hefur í leikjunum í undankeppni HM til þessa. Hann er vongóður um að Grétar Rafn Steinsson geti spilað.

"Við ætlum að byrja leikinn á því að fara dálítið hátt á þá og sjá hverju það skilar. Við erum á heimavelli og þurfum nauðsynlega á þremur stigum að halda," sagði Ólafur í samtali við Vísi í dag.

Hann ætlar að halda sig við svipað leikskipulag og hann hefur notað í síðustu leikjum. "4-5-1 leikkerfið hefur reynst okkur ágætlega. Það hefur verið ágætis framför í þessu hjá okkur og ég hef ekkert verið ósáttur við undanfarna leiki," sagði Ólafur.

Hann gerði upp leikina þrjá í stuttu máli og vill meina að liðið hafi bara vantað smá heppni.

"Við gerðum ágætlega í Noregi og fengum þar verðskuldað stig í leik sem við vorum hársbreidd frá því að stela í lokin (með stangarskoti Veigars Páls). Mér fannst við alls ekki eiga skilið að tapa á móti Skotunum og eftir þann leik vorum við frekar svekktir. Leikurinn við Holland var svo ágætur að mínu mati en þar var svekkelsið að við næðum ekki að nýta þau þrjú til fjögur dauðafæri sem við fengum."

Ólafur gerir sér vel grein fyrir því að þrátt fyrir allt eru það stigin sem telja. "Þetta snýst auðvitað um að ná úrslitum og það er það sem við erum að reyna. Þetta þarf að fara að detta fyrir okkur gerir það á endanum ef menn halda áfram að leggja sig alla fram."

Andstæðingar íslenska liðsins á morgun eru ekki sérlega þekkt stærð í knattspyrnuheiminum, en Ólafur segir liðið vera mjög sterkt.

"Þetta er vel skipulagt lið með margar útfærslur á leik sínum, svo það er dálítið erfitt að átta sig á þeim. Þetta eru sterkir, flinkir og vel skólaðir knattspyrnumenn. Makedónía er að mínu mati sterkara lið en Skotland og Noregur - og þeir eru betri en við - en við erum á heimavelli og það á að hjálpa okkur."

Ólafur telur góðar líkur á að Grétar Rafn Steinsson muni spila leikinn annað kvöld, en hann gat ekki leikið gegn Hollendingum vegna meiðsla.

"Bati hans hefur verið skjótari og betri en við þorðum að vona, svo ég tel meiri líkur en minni á að hann verði með," sagði Ólafur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×