Innlent

Gjaldskrár óbreyttar í Reykjavík

Ráðhúsið í Reykjavík.
Ráðhúsið í Reykjavík.

Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar vegna breytinga í fjármála- og atvinnuumhverfi var samþykkt samhljóða í borgarstjórn fyrr í dag með öllum greiddum atkvæðum.

Alvarleg staða á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, minnkandi tekjur borgarinnar, fjöldi vísbendinga um þrengingar í fjármálum sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila kalla að sögn borgarinnar á skýr skilaboð um meginlínur og markmið í viðbrögðum Reykjavíkurborgar.

Þrengri fjárhagsstöðu verður að svo stöddu ekki mætt með hækkunum á gjaldskrám fyrir grunnþjónustu eða skerðingu á þeirri þjónustu sem íbúar vænta frá leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og almennri velferðarþjónustu.

Í aðgerðaráætlunin er kveðið á um að aukins aðhalds verður gætt í innkaupum og stefnt að 15% sparnaði í þeim á næstu mánuðum og árum. Engin áform eru um uppsagnir starfsfólks, en dregið verður úr kostnaði og nýráðningum í stjórnsýslu borgarinnar.

Fjárheimildir sviða verða að jafnaði ekki auknar á árinu 2008 þrátt fyrir vaxandi verðbólgu. Leitast verður við að tryggja fjármögnun fyrir nauðsynlegum framkvæmdum. Gerð verður áætlun um sölu eigna sem verður lögð fram samhliða fjárhagsáætlun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×