Innlent

Lítur ekki á ummæli Davíðs sem hótun

Geir H. Haarde forsætisráðherra boðaði til blaðamannafundar í forsætisráðuneytinu fyrir stundu. Þar byrjaði hann að tala um að framkvæmdin við fleytingu krónunnar hefði gengið vel, þar sem hún hefði styrkst um 9% þvert á þá spá að hún myndi lækka. Hann fagnaði því að sú spá hefði ekki ræst.

Hann sagði þetta góð fyrirheit um framtíðina þó enginn gæti vitað neitt með vissu. Þetta benti þó til þess að efnahagsáætlunin gæti náð fram að ganga og verðbólgan gæti náðst hratt niður á næstu tólf mánuðum, líkt og áætlunin gerir ráð fyrir. Hann sagði einnig að þau Ingibjörg Sólrún hefði bent á að gengið væri alltof lágt.

Geir var einnig spurður út í ummæli Davíðs Oddssonar á fundi viðskiptanefndar í morgun þar sem Davíð hefði sagt í sumar að það væru 0% líkur á því að bankarnir myndu lifa af aðsteðjandi hættu í efnahagslífinu.

Geir segir að þarna sé Davíð að vitna í símtal sem þeir hafi átt í sumar, sem hann muni þó reyndar sjálfur ekki eftir. Hann sagði að það sem mestu máli skipti í þessu sé að Seðlabankinn hafi allt þetta ár haft miklar áhyggjur af stöðu viðskiptabankanna þó annað kunni að hafa birst í stöðugleikaskýrslum. Hann sagðist hafa rætt þetta mál við Davíð símleiðis í dag og það sem fari fram í tveggja manna samtali sé ekki opinber afstaða bankans.

Geir var einnig spurður út í þau ummæli Davíðs að yrði hann látinn hætta sem seðlabankastjóri myndi hann fara aftur út í stjórnmál. Geir sagðist ekki líta á það sem hótun við sig en benti á að stærsta fréttin varðandi þetta viðtal væru ummæli Davíðs gagnvart ESB. Hann benti einnig á að Davíð hefði látið birta athugasemd sína í viðtali á mbl.is í dag þar sem Davíð segir ummæli hafa verið slitin úr samhengi.

Einnig kom fram á fundinum að frumvarp um lækkun launa æðstu embættismanna ríkisins yrði lagt fyrir ríkisstjórnina á morgun og væntanlega fyrir þingið í næstu viku.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×