Enski boltinn

Ferguson og Queiroz kærðir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Queiroz og Alex Ferguson.
Carlos Queiroz og Alex Ferguson. Nordic Photos / Getty Images

Alex Ferguson, stjóri Manchester United, og Carlos Queiroz, aðstoðarmaður hans, hafa verið kærðir af enska knattspyrnusambandinu fyrir ummæli sem þeir létu falla eftir að United tapaði fyrir Portsmouth í ensku bikarkeppninni.

Portsmouth vann leikinn, 1-0, en Ferguson var óánægður með að Cristiano Ronaldo hafi ekki fengið vítaspyrnu þegar Sylvain Distin virtist brjóta á honum í vítateig Portsmouth.

Ferguson sagði að frammistaða dómarans í leiknum, Martin Atkinson, væri ekki ásættanleg. Queiroz sagði að hann hefði verið sér til skammar.

Ferguson sagði einnig að formaður ensku dómaranefndarinnar, Keith Hackett, þyrfti að skoða sinn gang.

„Ég get ekki útskýrt þetta," sagði Ferguson. „Knattspyrnustjórar eru reknir fyrir svona mistök og hann mun halda áfram að dæma um næstu helgi. Hackett er ekki að standa sig í starfi."

Ferguson og Queiroz hafa rétt til að svara kærunni til 17. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×