Enski boltinn

Milljarðamenn klára svona færi

Sex milljarða maðurinn sá ekki ástæðu til að brosa jafn huggulega og Wayne Rooney
Sex milljarða maðurinn sá ekki ástæðu til að brosa jafn huggulega og Wayne Rooney AFP

Framherjinn Dimitar Berbatov er ekki frægur fyrir að brosa mikið á knattspyrnuvellinum, en margir furðuðu sig á því að hann væri enn með skeifuna sína frægu eftir að hafa skorað sitt fyrsta mark fyrir nýja liðið sitt í gær.

Berbatov skoraði tvö mörk þegar United lagði danska liðið Álaborg 3-0 í gær en var eftir leikinn spurður að því af hverju hann hefði ekki fagnað fyrsta marki sínu fyrir Evrópumeistarana.

"Ég fagnaði ekki markinu af því skömmu áður hafði ég farið afar illa með gott færi og var enn reiður út í sjálfan mig. Ég skammaðist mín, því menn sem kosta svona mikla peninga eiga að skora úr svona færum. Ætli það skipti ekki mestu máli að við unnum leikinn," sagði Búlgarinn.

Berbatov gekk í raðir Manchester United frá Tottenham fyrir sléttum mánuði síðan og kostaði félagið 30,75 milljónir punda.

Til marks um atburðarásina á fjármálamörkuðum síðustu vikur má segja frá því að kaupverð Berbatov var þá reiknað í 4,6 milljarða króna - en hefðu þessi viðskipti farið fram í dag, hefði kaupverðið hljóðað upp á slétta 6 milljarða króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×