Erlent

Brown harðlega gagnrýndur fyrir meðferðina á Íslendingum

Breska blaðið Sunday Times birtir í dag langa grein þar sem Gordon Brown er harðlega gagnrýndur fyrir meðferð sína á Íslandi.

Blaðamaðurinn Adrian Gill heimsótti Ísland til þess að kynna sér stöðu mála og virðist hafa hrifist af landi og þjóð. Hann segir að Íslendingar séu frjálslyndasta, sanngjarnasta, vinnusamasta, best menntaða og skemmtilegasta þjóð í Evrópu.

Landið sé stórt en fólkið fátt, aðeins um 300 þúsund manns. Og þessa þjóð hafi Gordon Brown valið til þess að sparka í til þess að auka eigin vinsældir heimafyrir.

Hann hafi sett hryðjuverkalöggjöf á þjóð sem hafi ekki einusinni eigin her. Þar sem lögreglan keyri menn heim til sín ef þeir verði of drukknir.

Með því að beita hryðjuverkalöggjöfinni hafi Brown sett bandalagsþjóð á efnahagslega gjörgæslu fyrir nokkrar fyrirsagnir og nokkra punkta í skoðanakönnunum.

Hann hafi með gjörðum sínum endanlega kollvarpað íslenska bankakerfinu og efnahag landsins.

Gill segir að Brown hefði aldrei þorað að beita aðra þjóð þessum þjösnaskap. Hann hefði aldrei beitt þýska eða franska banka svipuðum aðgerðum, jafnvel ekki banka í Lichtenstein.

Adrian Gill virðist hafa komið víða við og talað við marga á ferð sinni um Ísland.

Hann kemst við þegar hann sér hvað þarf lítið til þess að gleðja þjóðina. Segir frá því hvernig íslendingar hafi safnast saman á túnblettinum fyrir framan Alþingishúsið til að gleðjast yfir því þegar handboltalið landsins vann silfur á Ólympíuleikunum.

Og Gill kann að setja hlutina í samhengi hann segir góðlátlega frá því að Alþingishús Íslendinga sé minna en gestahús Eltons Johns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×