Erlent

Varar andstæðinga Bandaríkjanna við

Obama tekur við embætti forseta Bandaríkjanna hinn 20. janúar, eða eftir rúman mánuð.
Obama tekur við embætti forseta Bandaríkjanna hinn 20. janúar, eða eftir rúman mánuð.
Robert Gates, varnarmálaráðaherra Bandaríkjanna, hefur varað andstæðinga Bandaríkjanna við því að efna til vandræða í von um að hrista upp í ríkisstjórn Baracks Obama.

„Hver sá sem heldur að næstu mánuðir henti vel til að reyna á þolrif nýju stjórnarinnar er að gera alvarleg mistök,“ sagði Gates á ráðstefnu með leiðtogum ríkja í Persaflóa í Bahrain.

„Obama forseti og hans þjóðaröryggislið, þar á meðal ég, verður tilbúið til að verja hagsmuni Bandaríkjanna og vinaþjóða okkar um leið og hann tekur við embætti 20. janúar.“

Joe Biden, væntanlegur varaforseti Bandaríkjanna, varaði við því í kosningaherferðinni í haust að reynt yrði að prófa Obama með erfiðu alþjóðlegu vandamáli um leið og hann tæki við embætti, rétt eins og gert var með John F. Kennedy, fyrrum Bandaríkjaforseta, og Kúbudeiluna.

Á fundinum í Bahrain sagði Robert Gates að málefni Mið-Austurlanda og Persaflóa verði áfram í brennidepli hjá Bandaríkjastjórn. Hann neitaði því jafnframt að Bandaríkjamenn ætluðu að koma stjórnvöldum í Íran frá völdum. Engu að síður vildu þeir að Íranar endurskoðuðu stefnu sína og hegðuðu sér öðruvísi.

Gates hefur fengið mikið lof bæði frá demókrötum og repúblikönum fyrir það hvernig hann hefur tekið á málum varðandi aukinn fjölda hermanna í Írak. Einnig hefur hann fengið lof fyrir dvínandi ofbeldi í landinu.

freyr@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×