Lífið

Öllum sjómönnum landsins boðið í partý!

Breki Logason skrifar
Íslensir Sjómenn er myndabók með sögum sjómanna.
Íslensir Sjómenn er myndabók með sögum sjómanna.

„Virðing okkar fyrir þessum mönnum sem eru fjarri fjölskyldum sínum lengst úti í ballarhafi dögunum saman er gríðarleg. Það voru einnig forréttindi að fá að kynnast þessum mönnum," segir Gústaf Hannibal Ólafsson sem býður öllum sjómönnum landsins í partý á Sægreifanum annað kvöld.

Gústaf lagði af stað í ferð í vetur ásamt vini sínum Gunnari Þór Nilsen ljósmyndara þar sem þeir töluðu við sjómenn víðsvegar um landið. Og afrakstur þeirrar ferðar en nú komin út í glæsilegri bók.

Bókin Íslenskir Sjómenn er myndabók með pistlum úr þessu ferðalagi þeirra félaga.

„Við vildum sýna fólki hvernig sjómennskan er í dag því hún hefur breyst mikið á síðustu árum. Við vildum fanga þennan raunveruleika því það hefur ekki komið út svona bók í um þrjátíu ár," segir Gústaf en bókin er 264 síður þar sem myndirnar spila stórt hlutverk.

Strákarnir sáu þann kost vænstan að fanga þennan raunveruleika með því að slást í för með sjómönnum. Fóru þeir meðal annars nokkra túra þar sem margt skemmtilegt kom í ljós. „Ég var nú reyndar sjóveikur allan tímann," segir Gústaf en sjóveiki er gerð sérstök skil í bókinni.

„Þetta er allt í bókinni."

Þeir Gústaf og Gunnar stofnuðu útgáfufélag í kringum þetta verkefni sem heitir Útgáfufélagið Ég og Þú og er bókarinnar að vænta í verslanir í næstu viku.

„Það er hinsvegar hægt að senda tölvupóst á olibok@simnet.is og fá hana í forsölu," segir Gústaf sem blæs til heljarinnar veislu á Sægreifanum annað kvöld klukkan 18:00.

„Öllum sjómönnum landsins er boðið í partý á Sægreifanum þar sem hægt verður að gæða sér á hinni margrómuðu humarsúpu og öðru fiskmeti. Það er síðan aldrei að vita nema einhverjir taki upp nikkuna og spili gömul og góð sjómannalög."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.