Innlent

Verðbólgan rýkur upp

Allt stefnir í að verðbólgan fari yfir 10 prósent við næstu mælingu og verði sú mesta í tæplega tuttugu ár. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir óskynsamlegt að hækka laun jafnvel þótt verðbólga fari í 11 prósent.

Það er dregin upp dökk mynd af í íslensku efnhagslífi í nýjasta hefti Peningamála Seðlabankans. Gert er ráð fyrir miklum samdrætti í einkaneyslu á næstu mánuðum, lækkun ráðstöfunartekna, allt að 30 prósent lækkun húsnæðisverðs og 11 prósenta verðbólgu í lok þessa árs.

Þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi hækkað stýrivexti tvisvar á síðastliðnum þremur vikum virðist ekki draga úr verðbólgu.

Frá því um mitt síðasta ár hefur verðbólgan verið á hraðri uppleið og mældist hún 8,7 prósent í mars. Greiningardeildir bankanna spá nú því að við næstu mælingu verði verðbólgan komin yfir 10 prósent. Gangi sú spá eftir er um ræða mestu verðbólgu sem mælst hefur hér á landi í nærri tvo áratugi.

Ljóst er að þetta mun setja verulegt strik í reikninginn varðandi kjarasamninga og að öllu óbreyttu mun því reyna á endurskoðunarákvæði þeirra.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdstjóri Alþýðusambandsins, sagði í samtali við fréttastofu ljóst að kjarasamningar verði í uppnámi gangi verðbólguspá Seðlabankans eftir.

Sjálfur telur Seðlabankinn miklar líkur á að semja verði um viðbótarhækkun launa vegna verðbólguhorfa.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulílfsins, segir óráðlegt að fara út í launahækkanir.

Hann segist ekki vera tilbúinn að skrifa upp á verðbólguspá Seðlabankann. „Ef verðbólgan verður 11 prósent þá er ég heldur ekki á þeirri skoðun að það verði skynsamlegt að hækka launin."

Vilhjálmur segir marga þætti vinna gegn verðbólguspánni, þar á meðal lækkun fasteignaverðs og skortur á lánsfé.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×