Lífið

Reykjavík! fagnar fyrsta fjárnáminu

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
MYND/Hörður Sveinsson

„Baldvin Esra hjá Kimi Records keypti okkur á nauðungarsölu. Hann sá að þarna var fjárhagslegt rekald á ferð, gerði tilboð í allt heila klabbið og á okkur nú með húð og hári," segir Haukur Magnússon gítarleikari Reykjavík!. Sveitin hyggst halda upp á bága fjárhagsstöðu og fjárnám á Kaffibarnum um helgina.

Forsaga málsins er sú að hljómsveitarmeðlimir, sem að eigin sögn eru bæði fjárhagslega þroskaheftir og lesblindir, höfðu lengi vanrækt skil á skattskýrslu sveitarinnar. Skattayfirvöld í Reykjavík hafa greinilega haft tröllatrú á tekjumöguleikum hennar, því þau ályktuðu að ekki kæmi annað til greina en Reykjavík! hefði þénað tugmilljónir á síðustu árum.

Svo var þó ekki. Svo fór því fyrir rest að árangurslaust fjárnám var gert í einkahlutafélagi sveitarinnar, Engin miskunn ehf. Þeir voru því sendir aftur til skattstjóra til að semja um skuldina, en í millitíðinni hafði leiðrétt skýrsla verið send til skattayfirvalda.

„Við fáum því greiðslufrest þangað til búið er að fara yfir hana og þeir fá staðfest endanlega hversu nöturlegur fjárhagslegur raunveruleiki íslenskra rokkara í pönkarakantinum er. Við höfum gert rosa fáar Vodafone auglýsingar undanfarið," segir Haukur sem sem hefur þó litlar áhyggjur af peningaleysinu almennt. „Mo money mo problems eins og Biggie Smalls sagði."

„Við fengum með þessu endanlega staðfest að við og fjármál og peningar eigum svo til enga samleið. Við ætlum að einbeita okkur að því að vera frekar bara glaðir og hafa gaman af lífinu en að hafa áhyggjur af þeim," segir Haukur.

Hann segist vona að sem flestir mæti og fagni fjárnáminu með þeim á Kaffibarnum á laugardaginn. „Það er frítt inn en það er hinsvegar skylduframlag í framkvæmdasjóð," segir Haukur og ítrekar að peningnum verði vel varið. „Hann fer alls ekki í neina vitleysu. Við ætlum bara að nota peninginn til að kaupa bjór til að gefa fólkinu í partýinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.