Enski boltinn

Redknapp útilokar ekki tilboð í leikmenn Portsmouth

NordicPhotos/GettyImages

Harry Redknapp, nýráðinn stjóri Tottenham, útilokar ekki að félagið muni gera kauptilboð í einhverja af þeim leikmönnum sem spiluðu undir hans stjórn hjá Portsmouth.

Bresku blöðin hafa strax orðað menn eins og Sylvain Distin, David James og Lassana Diarra við Tottenham - og þá hafa framherjarnir Peter Crouch og Jermain Defoe einnig verið nefndir til sögunnar. Þeir hafa báðir leikið með Tottenham áður.

"If Portsmouth hefur áhuga á að selja eitthvað af sínum leikmönnum, kæmi það til greina. Það eru mjög góðir leikmenn þar," sagði Redknapp.

Peter Storrie, framkvæmdastjóri Portsmouth, segir að engir leikmenn verði seldir án þess að rætt verði við knattspyrnustjórann fyrst og bætti við að félagið hefði þegar fengið tilboð í bæði Crouch og Defoe, en þeim hefði verið neitað.

"Við gætum skoðað það ef við fengjum fáránlega há tilboð," sagði Storrie. Hann segir Portsmouth ekki vera að fara sér óðslega í stjóraleitinni, en breska sjónvarpið greindi frá því í gær að Tony Adams aðstoðarstjóri liðsins hefði rætt við stjórnina um að taka við af Redknapp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×