Erlent

Fjöldauppsagnir á LA Times

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/UCLA.edu

Sjötíu og fimm manns verður sagt upp á dagblaðinu Los Angeles Times í niðurskurði sem hefst þar von bráðar.

Fækkun starfsmanna á blaðinu nemur tíunda hlutanum af fréttateymi þess og er uppsögnunum ætlað að létta róðurinn í þeim rekstrarlega brimskafli sem Los Angeles Times er nú statt í. Uppsagnirnar bárust hlutaðeigandi aðilum í tölvupósti þar sem ritstjórinn Russ Stanton kvaðst harma það mjög að þurfa að grípa til svo róttækra aðgerða en þakkaði þeim jafnframt þolinmæðina, skilninginn og samstarfsviljann á erfiðum tímum.

Þetta er önnur uppsagnahrinan á Los Angeles Times sem fyrir tæpum áratug veitti um 1.200 manns vinnu. Þeim hefur nú fækkað niður fyrir eitt þúsund en útgáfufyrirtækið Tribune er sagt eiga í verulegum rekstrarörðugleikum og vera stórskuldugt. Upplag Los Angeles Times er 780.000 blöð sem er nálægt dagblaðinu Washington Post að stærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×