Innlent

Davíð: Menn leita að skúrkum alls staðar nema í eigin ranni

Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir Björgólf Thor Björgólfsson ekki hafa verið á fundum sem haldnir hafi verið með stjórnendum bankans um hugsanlegt lán til bankans í aðdraganda hrunsins. Hann segir um málið að menn leiti að skúrkum alls staðar nema í eigin ranni.

Deila hefur staðið á milli yfirvalda og Björgólfs Thors um það hvort stjórnvöld hafi vitað af því að beiðni Landsbankans um lánafyrirgreiðslu fyrir bankafallið hafi verið til að koma Icesave-reikningunum Landsbankans í skjól breskra yfirvalda. Orð stendur gegn orði og var Davíð Oddsson seðlabankastjóri spurður út í málið á blaðamannafundi í morgun, meðal annars hvort honum hefði verið kunnugt um boð breskra yfirvalda um að taka við Icesave.

Davíð svaraði því til að Björgólfur Thor hefði ekki verið á fundum sem haldnir hefðu verið með stjórnendum bankanna. Benti hann á að Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, hefði sagt að bankinn þyrfti ekki 200 milljóna punda lán eins og Björgólfur hafi haldið fram heldur 500-600 milljóna.

Davíð sagði þó að menn í Seðlabankanum hefðu heyrt af því að Landsbankinn væri að reyna að flýta flutningi Icesave-reikninganna en á fundi með forsvarsmönnum bankanna skömmu fyrir bankafallið hefði verið rætt um allt önnur mál, veðkall Evrópubankans á íslensku bankana. Menn hafi talað um áhlaup á bankana vegna þess og rætt um mæta því en ekki um flýtimeðferðina. Sagði Davíð að menn væru að leita að skúrkum alls staðar nema í eigin ranni. Enginn vafi léki á því að Seðlabankinn væri með atburðarásina á hreinu í þessu máli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×