Erlent

Kim Jong Il hressist

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Er þetta hann?
Er þetta hann? MYND/AP

Kim Jong Il, leiðtogi Norður-Kóreu, virðist vera að hressast og er nú talinn geta stjórnað landinu forfallalaust að mati leyniþjónustu Suður-Kóreu. Leiðtoginn er ekki alheill heilsu eftir heilablóðfallið sem hann fékk um miðjan ágúst en mat suðurkóresku leyniþjónustunnar er að hann sé fær um að halda um stjórnartaumana.

Norður-Kóreumenn hafa neitað því staðfastlega að nokkuð ami að leiðtoganum og birtu því til stuðnings myndir af honum þar sem hann sést gera liðskönnun hjá her sínum. Efasemdir hafa hins vegar kviknað um að myndirnar séu nýjar.

Einnig telur leyniþjónusta Suður-Kóreu sig hafa heimildir fyrir því að sonur Kim Jong Il, Kim Jong Nam, hafi farið til Parísar nýlega og átt þar fund með taugaskurðlækni. Læknirinn á svo að hafa ferðast til Norður-Kóreu skömmu síðar.

Sumar leyniþjónustur hafa haft uppi kenningar um að Kim Jong Il sé löngu látinn en hópur tvífara gegni hlutverki hans á opinberum vettvangi. Er þetta meðal annars stutt með því að ekkert hafi sést til leiðtogans á tveggja mánaða tímabili og hafi hann til að mynda verið fjarverandi við ýmsar stórathafnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×