Enski boltinn

Robinho skoraði en Chelsea vann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Liðsfélagar Robinho fagna marki hans í dag.
Liðsfélagar Robinho fagna marki hans í dag. Nordic Photos / Getty Images
Robinho opnaði markareikning í sínum fyrsta leik með Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í dag. Hann kom sínum mönnum yfir gegn Chelsea sem vann þó á endanum 3-1 sigur.

Robinho skoraði markið úr aukaspyrnu strax á þrettándu mínútu leiksins. Aukaspyrnan var dæmd á Ricardo Carvalho fyrir brot á Jo. Varnarveggurinn hjá Chelsea var ekki réttur og það færði Robinho sér í nyt.

Aðeins fjórum mínútum síðar jafnaði Carvalho þó metin fyrir Chelsea. Liðið fékk horn og eftir að boltinn fór af John Terry og Joe Cole barst hann til Carvalho sem skoraði.

Þegar fyrri hálfleik lauk ákváðust þeir Deco og Robinho að skiptast á skyrtum sem er afar sjaldgæf sjón á þeim tímapunkti enda spiluðu þeir báðir áfram í síðari hálfleik.

Annað mark Chelsea kom eftir skyndisókn sem lauk með því að Frank Lampard afgreiddi knöttinn laglega í netið eftir sendingu Florent Malouda.

Þriðja markið skoraði svo Nicolas Anelka eftir sendingu Joe Cole sem hafði einnig lagt upp fyrsta markið.

Anelka skoraði á 70. mínútu en sjö mínútum síðar fékk John Terry að líta rauða spjaldið fyrir að brjóta á Jo þegar hann var við það að sleppa í gegn. Þetta þýðir að hann missir af leiknum gegn Manchester United, rétt eins og Nemanja Vidic sem fékk einnig að líta rautt í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×