Innlent

Jón Baldvin: Davíð stendur harðast gegn aðstoð frá IMF

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson.

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir að það sem standi helst í vegi fyrir því að Íslendingar sæki um aðstoð hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF), sé andstaða Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra.

Jón Baldvin var gestur í Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu í dag. Þar sagðist hann hafa öruggar heimildir um það frá vinum sínum í Sjálfstæðisflokknum, sem enn væru nokkrir, að "seðlabankastjórinn" standi haður á móti aðstoð frá IMF.

Jón sagði að þjóðarskútan hefði strandað, meðal annars fyrir tilstilli Davíðs Odssonar og nú væri staðan sú að hann væri á strandstaðnum „að þvælast fyrir." Að mati Jóns Baldvins er sá stimpill sem fylgir aðstoð frá IMF það sem við þurfum til þess að geta hafist handa við uppbyggingu íslensks efnahagslífs. „Ekki vegna þess að það er svo góður kostur, heldur vegna þess að við eigum engan annan kost," sagði Jón Baldvin.

Jón bætti því einnig við að það væri tómt mál að tala um íslensku krónuna. Hún væri ónýtur gjaldmiðill og það þyrfti ekkert að ræða frekar.

Hann staðhæfði einnig í viðtalinu að ef Ísland hefði gengið í Evrópusambandið á sínum tíma og tekið upp evru þegar landið uppfyllti þau skilyrði sem sett eru fyrir inngöngu í myntsamstarfið, væri Ísland ekki í núverandi vandræðum.

Jón Baldvin sagði einnig afar mikilvægt að þeir aðilar sem rannsaka eigi aðdraganda bankahrunsins komi erlendis frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×