Innlent

Samkeppnisbrot áttu sér stað fyrir eigendabreytingar

MYND/Anton

Forsvarsmenn Borgunar hf., sem áður var Kreditkort hf., segja að þau samkeppnisbrot sem félagið hafi verið sektað fyrir hafi átt sér stað áður en eigendabreytingar urðu fyrir tveimur árum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Borgun.

Félagið féllst á það að greiða 185 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna ólöglegs samráðs Kreditkorta, Greiðslumiðlunar og Fjölgreiðslumiðlunar á rúmlega tíu ára tímabili. Samtals námu sektir félaganna þriggja 735 milljónum króna.

Í tilkynningu frá Borgun segir að úrbótatillögur Samkeppniseftirlitsins í málinu séu í takt við stefnu Borgunar. „Þau brot sem Samkeppniseftirlitið vísar til áttu sér öll stað áður en eigendabreytingar áttu sér stað fyrir tæpum tveimur árum síðan. Núverandi meirihlutaeigendur fyrirtækisins hafa haft frumkvæði að því að stokka upp eignarhald fyrirtækisins til þess að tryggja góða stjórnar- og viðskiptahætti," segir í tilkynningunni.

„Það er mikilvægt að undirstrika að það samstarf sem um var að ræða sneri að miklu leyti að samráði um tæknilegar lausnir fyrirtækjanna. Eins og lesa má úr ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hefur ekki verið hægt að sýna fram á verulegan fjárhagslega ábata af samstarfinu annan en þann sem snýr að tæknilegum úrlausnarefnum," er haft eftir Hauki Oddssyni, forstjóra Borgunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×