Innlent

Stjórnvöld geta ekki setið með hendur í skauti

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir stjórnvöld ekki geta setið með hendur í skauti eins og ástandið í þjóðfélaginu sé nú. Forða verði fjölda fólks frá gjaldþroti sem nú blasi við.

Í pistli á heimasíðu samtakanna fjallar Jóhannes um ástandið og segir talsmenn atvinnulífsins ítrekað farið fram á að stjórnvöld tryggi að atvinnustarfsemin í landinu geti haldið áfram í sem eðlilegustum farvegi. Þessar aðgerðir og kaup á Glitni dugi hins vegar ekki einar og sér því ljóst sé að mörg heimili í landinu muni ekki geta staðið undir þeirri miklu kjaraskerðingu sem launþegar standi nú frammi fyrir.

Mörg heimili stefna í gjaldþrot

„Krónan er í frjálsi falli og gengisvísitalan í fyrsta skipti komin yfir 200 stig þegar þetta er skrifað. Gengislækkunin fer beint út í verðlagið með tilheyrandi verðhækkunum og tilkynningar um verðhækkanir birgja hrannast upp. Eldsneytisverð hækkar enn og hefur aldrei verið hærra. Jafnvel opinber fyrirtæki liggja ekki á liði sínu varðandi hækkanir eins og dæmið um Orkuveituna sýnir. Þeir sem eru í yngri kantinum hafa aldrei upplifað aðra eins verðbólgu og nú er. Vegna verðtryggingarinnar hækka svo afborganir af íbúðalánunum í takt við verðhækkanir, að ekki sé talað um gengistryggðu lánin þar sem skellurinn kemur fram fyrr," segir Jóhannes.

Hann segir enn fremur að ef ástandið verði óbreytt muni mörg heimili lenda í gjaldþroti og þeim sé þegar farið að fjölga. Slíkt geti ekki aðeins haft afar afdrifaríkar fjárhagslegar afleiðingar heldur geti það leitt til hjónaskilnaða. „Ekki verður við það unað að stjórnvöld sitji með hendur í skauti þegar ástandið er jafn alvarlegt og það er núna hjá heimilunum í landinu. Ástæða er til að ítreka að stjórnvöld komi á fót samráðshópi. Það er grafalvarlegur hlutur ef stjórnvöld gera ekkert á meðan heimilin verða í stórum stíl gjaldþrota af ástæðum sem þau ráða engu um," segir Jóhannes enn fremur.

Flýtimeðferð fyrir frumvarp um greiðsluaðlögun

Hann bendir á að það liggi fyrir tilbúið frumvarp viðskiptiaráðherra um greiðsluaðlögn og ef það verði samþykkt geti heimili óskað eftir greiðsluaðlögun vegna skulda sinna. „Þetta myndi fela í sér að heimili sem komið er í greiðsluþrot af ástæðum sem það ræður engu um getur fengið metið hve stóran hluta höfuðstóls lána það getur ráðið við. Ef niðurstaðan væri t.d. sú að heimili gæti aðeins greitt 60% yrðu allar skuldir lækkaðar sem því nemur. Löggjöf af þessu tagi er fyrir hendi á öllum Norðurlöndum og raunar fleiri löndum og hefur gefist afar vel og gjaldþrotum heimila hefur fækkað verulega. Jafnframt er ljóst að lánadrottnar fá mun meira greitt til baka af lánum mjög skuldsettra heimila en ella fengist með því að keyra skuldunautana í gjaldþrot sem lítið fengist út úr. Þar sem Alþingi hefur hafið störf sín á nýjan leik er eðlileg krafa að viðskiptaráðherra leggi þetta frumvarp fram þegar í stað og það fái flýtimeðferð hjá alþingismönnum vegna þess hve alvarlegt ástandið er að," segir Jóhannes.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×